Hildur & Óskar eru fyrstu brúðhjónin sem gefin eru saman í Papey síðan 1963. Það var ógleymleg reynsla að mynda brúðkaupið þeirra í eynni í ágúst síðastliðnum.

Það tók okkur klukkutíma að sigla út í Papey frá Djúpavogi, selir og lundar og svört sker liðu hjá í fölbláum sjónum sem rann næstum saman við himininn í þokunni. Papey er pínulítil eyja, þar hefur engin búið síðan 1966. Á eyjunni er aðeins viti, veðurstöð, 1 – 2 sumarhúsakofar og ein sú allra smæsta kirkja sem ég hef séð. Kirkjan er talin ein elsta viðarkirkja á landinu. Svo lítil er hún að hún rúmaði aðeins brúðhjónin, börn þeirra og foreldra, prestinn og tónlistarmanninn. Ég var hálf inni, hálf úti í dyragættinni að mynda athöfnina og að gæta þess af veikum mætti á sama tíma að skyggja ekki á útsýni gestanna sem stóðu úti fyrir.

Það var falleg og kyrrlát upplifun að mynda brúðkaup Hildar og Óskars í þokunni í Papey.

☞ Verðskrá