Salbjörg heiti ég, kölluð Dalla og er hönnuður sem ljósmynda. Flest verkefni vinn ég í Reykjavík eða nágrenni þar sem ég bý ásamt fjölskyldunni minni og nokkrum köttum.

Eftir hönnunarnám (e. Media Art and Design) við Bauhaus listaháskólann í Weimar í Þýskalandi flutti ég heim 2007.

Síðan þá hef ég unnið sjálfstætt að fjölbreyttum verkefnum, ljósmyndað fólk við ýmis tækifæri og unnið ýmis hönnunarverkefni fyrir og með stofnunum, einstaklingum, fyrirtækjum, vefstofum og auglýsingastofum.

Á síðustu árum hef ég m.a. unnið sem grafískur hönnuður með mörgu góðu fólki við sýningarnar: „Samtal – Dialogue“, um líf og störf Vigdísar Finnbogadóttur (Veröld – Hús Vigdísar 2017, Nordatlantens Brygge 2020), Landnámsdýrin í Landnámssýningunni Austurstræti og sýningu Náttúruminjasafns Íslands í Perlunni „VATNIÐ í náttúru Íslands“. Sú sýning var tilnefnd til evrópsku safnaverðlaunanna 2022.

Síðustu ár hefur áhuginn eðlilega beinst í ríkari mæli að verkefnum tengdum umhverfismálum, m.a. frá 2017, við að stofna og móta verkefnið Plastlausan september á Íslandi ásamt góðum og þverfaglegum hópi kvenna. Verkefnið er í fullum gangi og má kynna sér það á plastlaus.is og á öllum helstu samfélagsmiðlum. Í framhaldinu átti ég einnig þátt í að stofna og reka um skeið verslanirnar Vistveru í Grímsbæ (2018-2019) og Vonarstræti á Laugaveginum (2019-2020) sem voru skemmtilegar tilraunir, og að mörgu leyti árángursríkar, og sannarlega lærdómsríkar, til að gera umhverfisvænni vöruvalkosti aðgengilega og draga úr umbúðum.

2020 stofnaði ég litla bloggsíðu, Umbúðalaust þar sem mig langar að spjalla við og mynda fólk sem er að fást við umhverfismál beint eða óbeint eða pæla í sambandi okkar við umhverfið með einhverjum hætti. Síðan fer löööturhægt af stað en ég hef þó ekki gefið upp vonina um að halda áfram með hana við tækifæri, og þigg gjarnan hugmyndir um viðmælendur eða samstarf henni tengt.

Ég er félagi í FÍT, félagi íslenskra teiknara og Grapíku Íslandicu, félagi kvenna í hönnun.

Ef þú ert með spurningar, vilt koma í myndatöku eða hefur áhuga á öðru samstarfi heyrðu í mér:

Ljósmyndasýningar
2022, Gallery Grásteinn, Þá fæ ég að vita hvers vegna ég er ég og þú ert þú – Einkasýning
2019, Gallerí Korka, BURST – Samsýning Íslenska bromoilfjelagsins
2013, Listasafn Árnesinga, Andans konur – Myndaröð úr Skálholtskirkju sem hluti af sýningu á verkum Nínu Tryggvadóttur og Gerðar Helgadóttur, sýningarstjóri Ásdís Ólafsdóttir
2007, Ljósmyndasafn Reykjavíkur „Flickr-Flakk og heljarstökk“ – Samsýning

Ljósmyndir mínar hafa birst í bæði íslenskum og erlendum blöðum, tímaritum og bókum.