Salbjörg heiti ég, kölluð Dalla og er ljósmyndari og hönnuður í Reykjavík.

Eftir fimm ára hönnunarnám (e. Media Art and Design) við Bauhaus listaháskólann í Weimar í Þýskalandi flutti ég heim 2007. Síðan hef ég jöfnum höndum unnið sjálfstætt, ljósmyndað og unnið ýmis hönnunarverkefni fyrir og með stofnunum, einstaklingum, fyrirtækjum, vefstofum og auglýsingastofum. Á síðustu árum hef ég m.a. unnið sem grafískur hönnuður með mörgu góðu fólki við sýningarnar: „Samtal – Dialogue“, um líf og störf Vigdísar Finnbogadóttur (Veröld – Hús Vigdísar 2017, Nordatlantens Brygge 2020), Landnámsdýrin í Landnámssýningunni Austurstræti og sýningu Náttúruminjasafns Íslands í Perlunni „VATNIÐ í náttúru Íslands“.

Ég er félagi í FÍT, félagi íslenskra teiknara og Grapíku Íslandicu, félagi kvenna í hönnun.

Síðustu ár hefur áhuginn eðlilega beinst í ríkari mæli að verkefnum tengdum umhverfismálum.

Frá 2017, hef ég tekið þátt í að stofna og móta verkefnið Plastlausan september á Íslandi ásamt góðum og þverfaglegum hópi kvenna. Verkefnið er í fullum gangi og má kynna sér það á plastlaus.is og á öllum helstu samfélagsmiðlum.

Í júní 2018 eftir nokkuð skjótan aðdraganda, af hressandi fljótfærni en brennandi áhuga opnuðum við fjórar nágrannakonur fyrstu plastlausu búðina á landinu, Vistveru í Grímsbæ í Bústaðahverfi, sem við rákum saman til loka 2019. Frá lokum árs 2019 – 2020 rak ég ásamt frænku minni Ólöfu Maríu, verslunina Vonarstræti á Laugaveginum. Áfyllingarvörur ættu að fást í hverju hverfi!

Seinni part 2020 snéri ég mér svo alfarið að rekstri hönnunarstofu minnar og opnaði vinnustofu í hinu nýstofnaða Faxatorgi að Faxafeni 10.

Viljirðu hafa samband vegna verkefna eða mögulegs samstarfs:
hallo@dalla.is