Í nóvember 2019 opnuðum við, tvær frænkur, verslunina Vonarstræti á Laugaveginum. Vonarstræti er vistvæn verslun í anda Vistveru að því leyti að hún býður upp á ýmsa umhverfisvænni kosti þegar kemur að almennum hreinlætis- og neysluvörum en almennt eru á boðstólum og mikil áhersla er lögð á gegnsæi upplýsinga, hvað er í vörunum og hvaðan koma þær.

Vonarstræti býður að auki upp á fatnað og gjafavöru s.s. klæðnað úr hampi og bývaxkerti. Við lögðum einnig áherslu á að einfalda vöruúrvalið, bjóða helst aðeins það sem okkur fannst best og fallegast og ekki of margar tegundir í hverjum vöruflokki til að einfalda fólki valið. Umhverfissjónarmið ásamt áherslu á sanngjörn vöruviðskipti réðu öllum innkaupum, enda erfitt að aðskilja þetta tvennt.

Hjarta búðarinnar.

Við innréttingu á búðinni og útlitshönnun, lögðum við áherslu á að ramma fallegar vörurnar inn með afslappaðri stemmningu þar sem við blönduðum saman innréttingum úr viði, hráum málmi og stórum ljósmyndum. Við maðurinn minn fundum hjá okkur nýjan hæfileika og smíðuðum fatastanda og útiskilti úr járnrörum. Hjarta búðarinnar var svo borð hlaðið sápum og burstum eins og á markaðstorgi sem skapaði frjálslega og fallega stemmningu.

Okkur var hent út í djúpu laugina þegar samfélagið hálflamaðist vegna Covid-19 snemma árs 2020 og allt verslunarumhverfið og Laugarvegurinn sjálfur breytti um ásýnd nánast á einni nóttu. Verslunin gekk þrátt fyrir þetta vel, við vorum nokkuð úrræðagóðar eins og flestir verslunareigendur, buðum skutl og sóttfríar póstsendingar, og svo eru miðbæjarbúar jákvæðir gagnvart því að hafa vistvænni kosti á boðstólum í sínu nærumhverfi. Það sem kom kannski helst á óvart var hve lítið fækkaði af viðskiptavinum, túristar höfðu greinilega ekki verið að versla hjá okkur eins mikið og við héldum.

Við í Vonarstrætinu tókum einnig eftirminnilega þátt í að rífa upp stemmninguna í miðbænum með Viðburðarröð 10 Sopa og Vonarstrætis í samstarfi við Sumarborgina fyrir utan Laugaveg 27 á fimmtudögum í júlí sem heppnaðist frábærlega og fékk góðar viðtökur og umfjöllun. Boðið var upp á kakó og undrun með Óla Stefáns, uppistand með Heklu Elísabetu og Högni spilaði ljúflega á flygil.

Högni Egilsson spilar fyrir gesti og gangandi, júlí 2020.

Við frænkurnar unnum mörkun verslunarinnar saman og ég hannaði allt auglýsingaefni, vef og ásýnd verslunarinnar. Við einbeittum okkur að rafrænum miðlum, útlitið var hrátt og létt, með monospace letri, unnið var með svartan bakgrunn á fyrirsögnum og merkingum í anda merkinga úr merkingavélum sem tíðkast að nota í áfyllingarbúðum og eru einnig algengir í ‘story’ á samfélagsmiðlum.

Merki Vonarstrætis negatívt.

Vefur Vonarstrætis nóvember 2019.

„Vonarstræti – Fyrir fólk | Fyrir umhverfið“