Vistvera, Grímsbæ 2019
Tannkremstöflur

2018 stofnuðum við nokkrar nágrannakonur í Smáíbúðahverfinu, sem vildi svo vel til að voru líffræðingur, doktorsnemi í umhverfis- og auðlindafræði, bókari og hönnuður, Vistveru. Vegna fjölbreytts bakgrunns okkar og með hjálp fjölskyldunnar gátum við með litlum tilkostnaði opnað fallegt verslunarhúsnæði í Grímsbæ í Bústaðahverfi ásamt vefverslun. Það sem við stofnuðum af hugsjón og kannski í örlítið skemmtilegri fljótfærni óx hratt, mun hraðar en okkur nokkurn tíma óraði fyrir, enda Íslendingar bæði nýjungagjarnir og vilja gjarnan láta gott af sér leiða. Í dag, um tveimur árum síðar, er Vistvera vel þekkt verslun sem rekur heildverslun og er með útibú á þremur stöðum.

Vistvera, Grímsbæ. 1. júní 2018 til vinstri, 14. júní 2019 til hægri.
Lífrænar þvottasápuskeljar

Í Vistveru lögðum við upp úr sem mestu plast- og umbúðaleysi og að bjóða upp á ýmsa vistvænni kosti á einum stað, svo sem hreinsivörur og snyrtivörur í áfyllingu, ýmsar vörur úr niðurbrjótanlegum og náttúruefnum og kynntum nýjungar á markaði eins og tannkremstöflur. Við lögðum áherslu á gegnsæi og gott aðgengi að upplýsingum um vöruna, innihald og uppruna en best var auðvitað að varan kæmi til okkar sem stystan veg með minna kolefnisspori. Einnig var klárt mál frá upphafi að mikilvægt væri að stunda öfluga fræðslu um hvers vegna varan var heilnæmari eða umhverfisvænni en aðrir kostir, þar sem margar varanna voru á þessum tíma enn lítið eða jafnvel óþekktar á Íslandi.

Grænsápa í áfyllingu

Þetta var samvinnuverkefni rekið af hugsjón þar sem við gengum í öll verk, rákum verslunina, stofnuðum heildsölu, stóðum fyrir mörkuðum og kynningum og sáum um allar auglýsingar og kynningarstarf. Við lögðum áherslu á hlýlegt umhverfi, döðruðum aðeins við sveitarómantík, enda margt sem við vorum að kynna sem minnti eldri viðskiptavini okkar á fyrri tíma eins og grænsápa og teppabankari. Við vorum samkvæmar sjálfum okkur í vali innréttinga, þær voru að mestu fengnar eða keyptar notaðar og sóttar héðan og þaðan, og við öll aðföng, viðburði og auglýsingar fyrir verslunina veltum við fyrir okkur hvaða kostur væri bestur fyrir umhverfið út frá efni og aðstæðum. Sanngjarnt og stöðugt vöruverð var haft að leiðarljósi og tilboðsdögum á borð við svartan föstudag hafnað. Við höfðum lokað á sunnudögum og öllum frídögum og forðuðumst langar opnanir m.a.s. fyrir jólin í anda meðvitaðrar neyslu og hægs lífstíls.

Að reka verslun á forsendum umhverfisins er auðvitað ákveðin þversögn í sjálfu sér og óhætt að segja að við höfum mætt ýmsum hindrunum því tengdu, og átt snúnar samræður innanborðs og ekki síst við viðskiptavini um vandan að vinna að umhverfismálum í neyslusamfélagi.

Allt útlit var í mínum höndum, hönnun merkis, hönnun og uppsetning vefs, merkinga í verslun, ljósmyndun og allt auglýsingaefni. Við gerð alls kynningarefnis unnum við auðvitað út frá sömu góðu gildunum, þ.e. að sem minnst sóun ætti sér stað við framleiðslu þess og upplýsingar og aðgengi að þeim væru góðar.

Við notuðum stimpil til að merkja auglýsingaefni, ef prenta þurfti gerðum við það í takmörkuðu upplagi til að sitja ekki upp með ónothæfan pappir og nafnspjöld voru prentuð á pappír sem til féll hverju sinni. Auglýsingar voru helst í rafrænum miðlum með áherslu á samfélagsmiðla þó við gerðum einstaka undantekningar á því til að ná til breiðari hóps.

Vistvera vefur Júní 2018

Auglýsingaefnið endurspeglaði verslunina, hreint og beint með tilfinningu um hlýleika og öryggi. Upplýsingar, aðgengi og gott notendaviðmót í fyrirrúmi. Litapallettan náttúruleg, svört, hvít og brún eins og pappírinn sem við unnum oft með. Glaðlegir litir voru notaðir til að poppa upp samfélagsmiðlapósta. Eilítið íhaldssamt en fallegt fótaletur í merkinu, með hinu skýra og klassíska Avenir letri, til mótvægis í fyrirsögnum, meginmáli og öðrum texta.

„Vistvera, Einfalt líf – Náttúrulega“

Einhverjar spurningar?
☞ Hallo@dalla.is